VBS fjárfestingarbanki hf. skilaði 1.352 milljóna króna hagnaði fyrir skatta á fyrri hluta ársins 2007 en það jafngildir 48% ávöxtun eigin fjár á ári, samkvæmt fréttatilkynningu frá félaginu. Lætur því nærri að hagnaður hafi numið um 10 milljónum króna á hverjum virkum degi frá því að samruni VBS og FSP hf. tók gildi um áramótin.

Að teknu tilliti til skatta var hagnaðurinn 1.114 milljónir sem jafngildir 39% ávöxtun eigin fjár á ársgrundvelli.

Samkvæmt fyrsta hálfs árs uppgjöri sameinaðs banka nemur eigið fé rúmum 7,7 milljörðum króna og er eiginfjárhlutfall (CAD) 30,3%.

Hlutfall rekstrakostnaðar af tekjum var aðeins 23% sem er með því lægsta sem þekkist hjá íslenskum fjármálafyrirtækjum. Fjárhagslegur styrkur og aðrar forsendur eru því fyrir hendi til stækkunar bankans og gefur árangurinn hingað til fyrirheit um að sá vöxtur muni einkennast af góðri arðsemi eigin fjár, segir í tilkynningunni.

Jón Þórisson, framkvæmdastjóri, segir árangurinn framar björtustu vonum. ?Eftir sameininguna við FSP höfum við unnið markvisst að því að auka fjölbreytni í starfseminni. Við höfum náð ánægjulegum viðsnúningi í vaxtatekjum, byggt upp lánasafn og aukið verulega tekjur af miðlun verðbréfa og eignastýringu sem og af milligöngu og ráðgjöf fyrir fyrirtæki. Á sama tíma er rekstrarkostnaðurinn mjög lágur. Sameiningin hefur því heppnast fullkomlega og við erum komin á fulla ferð. Verkefnastaðan okkar er mjög góð á öllum afkomusviðum og því horfum við fram á mikinn og góðan vöxt á næstunni, ? segir Jón.

Gengi hlutabréfa VBS var um áramót 17,5 krónur á hvern hlut en var 32 krónur á hlut þann 30. júní, og hefur því gengi bankans hækkað um ríflega 82%. Að auki fengu hluthafar greiddan arð í maí sem nam um 70 milljónum. Miðað við gengið 32 er verðmæti VBS rúmir 14,2 milljarðar króna.