Seðlabankinn sendi viðvörunarbréf til VBS fjárfestingarbanka í febrúar 2008 vegna þess að bankinn var ekki með tilskilið lausafjárhlutfall. Í svarbréfi VBS kom ekkert fram sem gaf til kynna að sú staða væri að lagast. Þá taldi Fjármálaeftirlitið (FME), í skýrslu sem skilað var inn í desember 2008, að margir helstu viðskiptavinir VBS væru komnir í vandræði mánuðum fyrir hrun, að útlánatap væri fyrirsjáanlegt hjá bankanum og að mat á tryggingum fyrir lánum hans væru mörg hver úrelt.

Þetta kemur fram í afstöðubréfi slitastjórnar VBS til Seðlabanka Íslands þar sem veðtöku hans vegna 29,8 milljarða kröfu er hafnað. Viðskiptablaðið greindi frá því í síðustu viku að slitastjórn VBS hefur hafnað allri veðtöku Seðlabanka Íslands í eignum búsins á grundvelli þess að Seðlabankinn vissi vel að VBS var ógjaldfær á þeim tíma sem hann tryggði sér veð í eignunum.

VBS var ekki tekinn yfir af FME fyrr en í mars 2010 og náði því að starfa í rúm tvö ár eftir að bréf Seðlabankans var sent. Hann starfaði auk þess í tæpt eitt og hálft ár eftir að skýrsla FME lá fyrir. Slitastjórn VBS telur að Seðlabankanum „hafi verið eða mátt hafa verið kunnug bág staða bankans strax í febrúar 2008“.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag, fimmtudag. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.