Seðlabankinn sendi viðvörunarbréf til VBS fjárfestingarbanka í febrúar 2008 vegna þess að bankinn var ekki með tilskilið lausafjárhlutfall. Í svarbréfi VBS kom ekkert fram sem gaf til kynna að sú staða væri að lagast. Þá taldi Fjármálaeftirlitið (FME), í skýrslu sem skilað var inn í desember 2008, að margir helstu viðskiptavinir VBS væru komnir í vandræði mánuðum fyrir hrun, að útlánatap væri fyrirsjáanlegt hjá bankanum og að mat á tryggingum fyrir lánum hans væru mörg hver úrelt. Þetta kemur fram í afstöðubréfi slitastjórnar VBS til Seðlabanka Íslands þar sem veðtöku hans vegna 29,8 milljarða kröfu er hafnað.

VBS var ekki tekinn yfir af FME fyrr en í mars 2010 og náði því að starfa í rúm tvö ár eftir að bréf Seðlabankans var sent. Hann starfaði auk þess í tæpt eitt og hálft ár eftir að skýrsla FME lá fyrir. Slitastjórn VBS telur að Seðlabankanum „hafi verið eða mátt hafa verið kunnug bág staða bankans strax í febrúar 2008“.

Viðvörun Seðlabankans

Þann 2. apríl 2008 sendi Seðlabanki Íslands bréf sem stílað var á Jón Þórisson, þáverandi forstjóra VBS. Í bréfinu, sem var undirritað af Tryggva Pálssyni, framkvæmdastjóra fjármálasviðs Seðlabankans, stóð meðal annars: „Efni:Viðvörun um viðurlög vegna lausafjárhlutfalls. Í 4. gr. reglna Seðlabanka Íslands um lausafjárhlutfall segir m.a.: Nái lausafjárhlutfall lánastofnunar ekki því lágmarki sem sett eru í 1. mgr. 3. gr. skal reikna dagsektir á þær fjárhæðir sem á vantar [...] Lánastofnun yðar uppfyllti ekki tilskilið lausafjárhlutfall þann 29. febrúar 2008 [...] vöntun 1.763.340.000, vænt viðurlög 36.736.250.“ Seðlabankinn hefur eftirlit með lausafjárstöðu fjármálafyrirtækja á Íslandi.

Erfiðleikar staðfestir

VBS svaraði Seðlabankanum rúmum mánuði síðar, eða 9. apríl 2008. Í svarbréfinu er gerð grein fyrir lausafjárerfiðleikum bankans. Þar segir að „allt frá því í desember 2007 hefur VBS fjárfestingarbanki fundið fyrir minnkandi framboði á lausu fé hér á landi. Lánveitendur VBS, einkum íslenskar fjármálastofnanir, hafa brugðist við með því að binda fé sem lánað er í sífellt styttri tíma. Lánveitendur sem fyrir fáeinum mánuðum voru viljugir til að lána til þriggja eða sex mánaða voru í janúar og febrúar ekki tilbúnir að framlengja einstökum lánveitingum lengur en viku í hvert sinn. Jafnvel voru dæmi um að lánveitendur VBS til margra ára væru einungis tilbúnir að lána til eins dags í senn. VBS fjárfestingarbanki reiðir sig á fyrirgreiðslu lánveitenda og þrátt fyrir að bankinn hafi verið tilbúinn að greiða hærri vexti til að tryggja sér lán til lengri tíma voru lánveitendur ekki í stakk búnir, að eigin sögn, að binda fé sitt lengur“. Því er ljóst að aðrir lánveitendur en Seðlabankinn voru ekki tilbúnir að lána VBS nema í mesta lagi í viku í senn.

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.