VBS fjárfestingarbanki hf. (VBS) hefur flutt starfsemi sína í nýtt húsnæði að Borgartúni 26. Nýja skrifstofuhúsnæðið er um 1.100 fermetrar að stærð. VBS var áður til húsa að Suðurlandsbraut en þar hafði bankinn haft aðsetur undanfarin 12 ár, eða allt frá stofnun hans árið 1996. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá VBS.

Í tilkynningunni segir Jón Þórisson forstjóri VBS, að töluverðar breytingar hafi átt sér stað á starfsemi bankans að undanförnu. VBS hafi útvíkkað starfsemi sína verulega og því var þörfin eftir nýju húsnæði orðin aðkallandi.

„VBS sinnir nú fleiri þáttum á sviði bankastarfsemi en áður, svo sem eignastýringu, lánastarfsemi, fyrirtækjaráðgjöf og markaðsviðskiptum. Viðskiptavinum hefur fjölgað ört, sem og viðfangsefnum. Það eru því spennandi tímar framundan hjá VBS í nýju húsnæði bankans í Borgartúni,” segir í tilkynningunni.