Tryggingamiðstöðin og VBS Fjárfestingarbanki hafa gert upp kröfu sem myndaðist þegar TM lagði 2,5 milljarða króna inn á reikning VBS í janúar 2008. Eins og kom fram í Viðskiptablaðinu á sínum tíma voru fjármunirnir notaðir til að kaupa hlutabréf í FL Group og Glitni, þvert á vilja stjórnar TM.

Að sögn Jóns Þórissonar, forstjóra VBS, hefur krafan verið gerð upp að hluta og er í fullum skilum.

Skuldin er hins vegar ekki að fullu uppgerð og TM er því enn meðal lánardrottna VBS. Jón sagði að gefinn hefði verið út lánasamningur til greiðslu á hluta skuldarinnar og hluti hennar var gerður upp.

Við uppgjör málsins seldi VBS 5,1% hlut sem bankinn átti í MP Banka til TM. Að sögn Jóns var einnig greitt með reiðufé.

Jón sagði að enginn ágreiningur væri á milli félaganna um uppgjör málsins eftir þetta en hann sagði að um hefði verið að ræða fjármögnun sem þeir sóttu út á markað.