VBS fjárfestingarbanki notaði fé frá Tryggingamiðstöðinni (TM) til að kaupa hlutabréf í FL Group og lánaði síðan stærsta eiganda FL Group 1,4 milljarða króna til að kaupa bréfin til baka nokkrum mánuðum síðar. Heimildir Viðskiptablaðsins herma að VBS hafi verið fengið til að halda á bréfunum tímabundið til að skapa falska eftirspurn og halda uppi virði þeirra. Baksamningur hafi verið í gildi sem tryggði kaupanda að bréfunum. Grunur er um að markaðsmisnotkun hafi átt sér stað.

Fé TM notað til að kaupa í FL Group

Forsaga málsins er sú að TM, sem þá var nýkomin í eigu FL Group, lagði um 2,5 milljarða króna inn á peningamarkaðsreikning hjá VBS í febrúar og mars 2008. Féð notaði VBS síðan til að kaupa hlutabréf í FL Group, alls um 208 milljónir hluta. Gengi bréfa í FL Group á þessum tíma var um 12 krónur á hlut.

Viðskiptablaðið greindi frá þessum kaupum í desember 2008. Þar kom fram að ákvörðun um að leggja fé TM inn í VBS hefði ekki verið borin undir stjórn TM heldur tekin af forstjóra félagsins, Sigurði Viðarssyni, og að það hefði verið gert á viðskiptalegum forsendum.

Eigandi FL Group kaupir bréfin

VBS seldi síðan Styrk Invest, félagi í eigu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og aðila tengdum honum, bréfin til baka í lok júlí 2008. Styrkur var þá stærsti einstaki eigandi FL Group, sem á þeim tíma hafði tekið upp nafnið Stoðir. Bréfin voru keypt á genginu 6,6 krónur á hlut, um 1,4 milljarða króna, og því ljóst að VBS og hluthafar bankans höfðu tapað rúmum milljarði króna á þeim skamma tíma sem bankinn átti bréfin. VBS lánaði auk þess að fullu fyrir kaupunum. Þetta kemur fram í lánasamningi milli Styrks og VBS frá 31. júlí 2008 sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .