Það vantar ekki að mikið hefur verið talað um mögulegar sameiningar innan fjármálageirans að undanförnu en nú hillir kannski loks undir það að orð verði að veruleika ef svo fer, sem sterkar vísbendingar eru um, að Icebank og VBS fjárfestingarbanki gangi saman upp að altarinu og síðan í eina sæng.

Að vísu skal tekið fram að forstjórar VBS fjárfestingarbanka og Icebank, þeir Jón Þórisson og Agnar Hansson, hafa ekki viljað tjá sig um hina meintu ást og giftingaráform – eða, svo rétt sé með farið, um viðræður um sameiningu Icebank og VBS.

Það breytir þó ekki því að Viðskiptablaðið hefur heimildir fyrir því að stífar viðræður um mögulega sameiningu hafi átt sér stað að undanförnu og að reikna megi með að stutt sé í að fréttir berist af þeim viðræðum.

Sem fyrr segir hefur verið mikill orðrómur um sameiningar smærri fjármálafyrirtækja en samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er komin meiri alvara í viðræður Icebank og VBS þótt niðurstaða liggi enn ekki fyrir.

Þótt forstjórar Icebank og VBS, þeir Agnar og Jón, neiti að tjá sig um viðræður á milli bankanna tveggja dregur þó hvorugur þeirra dul á að miklar þreifingar hafi almennt átt sér stað á milli fjármálafyrirtækja að undanförnu, m.a. vegna hvatningar frá bæði Seðlabanka Íslands og Fjármálaeftirlitinu, og forsvarsmenn fleiri fjármálafyrirtækja hafa raunar sagt slíkt hið sama eða talað um brýna nauðsyn hagræðingar og stærri eininga í fjármálageiranum.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .