Vegna frétta í dag af því að sænski fjárfestingarbankinn Carnegie hafi verið tekin yfir af opinberum yfirvöldum í Svíþjóð,  vill VBS fjárfestingarbanki koma því á framfæri að þessi ráðstöfun hefur hvorki áhrif á dagleg viðskipti með hlutdeildarskírteini Carnegie sjóðanna né verðmæti þeirra.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá VBS.

Þar kemur fram að verðbréfasjóðir Carnegie eru reknir af sjálfstæðu dótturfélagi bankans í Kaupmannahöfn og varsla þeirra á höndum annars dótturfélags í Luxemburg.

„Starfsleyfi þessara félaga eru í fullu gildi og ofangreindar ráðstafanir hafa engin áhrif á starfsemi þeirra,“ segir í tilkynningu VBS.

„Óvissu um framtíðareignarhald Carnegie bankans verður vonandi eytt innan tíðar enda hafa sænsk yfirvöld lagt áherslu á að bankinn verði seldur fljótlega.“