Tap VBS fjárfestingarbanka nam á fyrri helmingi ársins rúmum 4,3 milljörðum króna eftir skatta og fjármagnsliði, samanborið við tap upp á rúmar 870 milljónir króna á sama tíma í fyrra.

Þetta kemur fram í hálfsárs uppgjöri bankans. Tapið fyrir skatt og fjármagnsliði nemur tæpum 4,9 milljörðum króna, samanborið við tap upp á 1,1 milljarð á sama tíma í fyrra.

Samkvæmt árshlutareikningi tímabilsins 1. janúar til 30. júní 2009 nemur eigið fé 4,7 milljörðum króna, samanborið við 8,9 milljarða á sama tíma í fyrra, og er eiginfjárhlutfall bankans (CAD) 15,2%.

Þegar uppgjör bankans er skoðað nánar sést að hreinar vaxtatekjur voru neikvæðar um rúma 1,3 milljarða króna samanborið við 334 milljóna króna hreinar tekjur á sama tímabili í fyrra.

Hreinar rekstrartekjur aukast þó nokkuð á milli ára, námu 880 milljónum króna á fyrri helmingi þessa árs, en voru um 118 milljónir króna á sama tímabili í fyrra.

Rekstrarkostnaður tímabilsins nam 565 milljónum króna samanborið við 473 milljónir króna á sama tíma 2008 en launakostnaður dregst þó saman um tæp 24% og nam á fyrri helmingi þessa árs um 227,5 milljónum króna. Starfsmönnum fækkar þó aðeins um 2 samkvæmt árshlutaskýrslunni.

Virðisrýrnun jókst þó um tæp 580% á milli ára, nam 5,2 milljörðum króna á fyrri helmingi þessa árs en var á sama tíma í fyrra um 765 milljónir króna.

Eignir drógust saman um 28,9% á tímabilinu og eru nú ríflega 40 milljarðar. Skuldir lækkuðu um 25,4% á tímabilinu og nema nú 35,3 milljörðum. Eiginfjárhlutfall reiknað samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki er 15,2%

Eignir bankans minnka verulega á milli ára eða um 29%, fara úr 56,2 milljörðum króna niður í 40 milljarða. Skuldir bankans lækka þó einnig, fara úr 47,3 milljörðum króna niður í 35,3 milljarða og minnka því um tæp 25%.

Stærsta skuld bankans er við Ríkissjóð Íslands, rétt rúmir 19 milljarðar króna. Þá er bankinn með lán frá öðrum fjármálafyrirtækjum upp á rúma 9 milljarða og útgefin skuldabréf fyrir tæpa 5 milljarða króna.