Í nýju frumvarpi að lögum um fjármálafyrirtæki verður innleidd Evrópusambandstilskipum sem meinar slíkum fyrirtækjum að núvirða skuldir sínar til að auka eiginfjárhlutfall sitt.

VBS Fjárfestingabanki færði 9,4 milljarða króna af alls 26,4 milljarða króna láni sem íslenska ríkið veitti bankanum í upphafi árs sem tekjur í ársreikningi 2008. Án núvirðingarnar hefði bankinn verið með neikvætt eigið fé og því tæknilega gjaldþrota.

Lánið var veitt til að halda kröfum ríkisins vegna veðlánaviðskipta Seðlabankans lifandi, en ríkið tók yfir þær kröfur svo að Seðlabankinn yrði ekki gjaldþrota. VBS var eitt þeirra fyrirtækja sem var fyrirferðamikið í milligöngu fyrir stóru viðskiptabankanna þrjá í hinum svokölluðu endurhverfu viðskiptum.

Ríkissjóður afskrifaði 175 milljarða króna vegna þeirra viðskipta á ríkisreikningi ársins 2008. Þegar lögin taka gildi þá verður VBS að taka núvirðinguna til baka. Það þýðir að skuldir bankans munu hækka og eignir hans minnka í samræmi við það.

Hafa tekjur af miðlun og ráðgjöf

Jón Þórisson, forstjóri VBS, segir að bankinn muni bregðast við þessum lagabreytingum.

„Okkur hefur verið það ljóst að þessi tilskipun yrði innleidd. Við höfum því undirbúið það og það eru til leiðir til að bregðast við þessu. Við höfðum farið yfir þær leiðir með fjármálaráðuneytinu, sem veitti okkur þetta lán sem kallaði á núvirðinguna, og fjármálaeftirlitinu. Ég get hins vegar ekki sagt opinberlega hvaða leiðir það eru sem við erum að skoða. En þetta er ferli sem leiðir til baka þessa núvirðingu þannig að við þurfum ekki að hafa áhyggjur af henni.“

Í ársreikningi VBS fyrir árið 2008 er ábending frá endurskoðanda bankans þar sem tiltekið er að veruleg óvissa sé um fjármögnun bankans, en að unnið sé að varanlegri lausn á þeim vanda. Jón segir að ýmislegt hafi áunnist í þessum efnum.

„Okkur hefur tekist að minnka efnahagsreikninginn og tryggja fjármögnun okkar betur. Við höfum þurft að fjármagna okkur úr rekstri og við höfum haft tekjur af til dæmis miðlun og ráðgjöf. Það hefur gengið þokkalega. Við höfum ekki þurft á neinu viðbótarfjármagni að halda því við höfum meðal annars gert upp skuldbindingar okkar að hluta.“

Gengið vel að innheimta lán

Um 60 til 70 prósent af lánasafni VBS eru lán til verktaka og fyrirtækja í byggingariðnaði. Mjög margir í þeim geira glíma við mikla rekstarerfiðleika vegna hruns fasteignarverðs og lítillar eftirspurnar eftir nýjum fasteignum. Að sögn Jóns hefur VBS þó gengið nokkuð vel að innheimta af sínum lánum.

„Við vorum fyrst og fremst að veita brúarlán vegna framkvæmda sem komnar voru á veg. Við höfðum stöðvað lán til nýrra framkvæmda um nokkurt skeið áður en að hrunið varð. Það hefur gengið nokkuð vel innheimta vegna þess að sumir þessara aðila hafa getað lokið við framkvæmdir og því fengið langtímafjármögnunina sem þeir sóttust eftir. Svo hefur líka selst dálítið af eignum þrátt fyrir allt. En að sjálfsögðu höfum við ekki fengið endurgreitt í samræmi við það sem samningar kváðu á um. Ef skoðaður er endurgreiðsluprófíll hvaða banka sem er þá er sá banki góður sem er með einhver tíu til tuttugu prósent af þeim prófíl að skila sér.“

Býst við frekari niðurfærslu

Um mitt ár 2009 hafði VBS fært 36,1 prósent af lánasafni sínu á varúðarniðurfærslu og afskriftareikning. Jón segir viðbúið að samhliða uppgjöri fyrir árið 2009 muni bankinn færa eitthvað til viðbótar til niðurfærslu.

„Hluti af því sem við færðum niður á miðju ári hefur komið til baka. Stærsti hlutinn sem við erum að færa niður er af varúðarsjónarmiðum. Menn vita náttúrulega ekkert hvernig fermetraverðið á íbúðarhúsnæði í Reykjavíkur er eða hvernig það muni þróast.“