VBS fjárfestingabanki hefur lokið að verðmeta tæknifyrirtækið Kögun og telur bankinn að heildarvirði félagsins sé 20,2 milljarðar króna, segir í tilkynningu til Kauphallar Íslands.

Stjórn Kögunar fól VBS fjárfestingabanka að verðmeta félagið í kjölfar yfirtökutilboðs Dagsbrúnar frá því í mars síðastliðnum. Yfirtökutilboð Skoðunar, sem er í eigu Dagsbrúnar, hljóðaði upp á 75 krónur á hlut, sem samsvarar því að virði hlutafjár félagsins sé 14,5 milljarðar króna. Skoðun á nú þegar 51% hlut í Kögun og hefur gert öðrum hluthöfum félagsins yfirtökutilboð.

Í verðmati VBS segir að heildarvirði eigin fjár Kögunar sé 13,2 milljarðar króna, sem gefur gengið 69,45 krónur og er 7,4% undir því gengi sem hluthöfum er boðið við innlausn bréfa sinna.

Bankinn segir að við verðmatið hafi verið við ársuppgjör Kögunar fyrir árið 2005 og þriggja mánaða uppgjör fyrir árið 2006. Einnig er litið til gagna varðandi samruna Kögunar og Opinna kerfa og fleiri gagna.

Tekið er fram að vöxtur Kögunar hefur verið mikill undanfarin ár, sem er að stærstum hluta tilkominn með yfirtökum innlendra og erlendra fyrirtækja. Einnig segir í verðmati VBS að hlutdeild Kögunar í innlendri hugbúnaðarstarfsemi er umtalsverð og tækifærum til frekari vaxtar innanlands fer að líkindum fækkandi.

"Nú síðast keypti Kögun 58,7% hlut í EJS sem veitir víðtæka þjónustu á sviði
upplýsingatækni. Ljóst er þó að núverandi viðskiptavinir Kögunar hafa þörf fyrir aukna þjónustu þannig að innri vöxtur er enn til staðar," segir í verðmatinu. Hins vegar telur VBS að tækifæri til ytri vaxtar séu að mestu leyti erlendis.

VBS segir rekstur Kögunar standa traustum fótum og að fjárhagsstaða þess er mjög góð. Félagið hefur yfir miklu handbæru fé að ráða en í lok mars 2006 var það um 2,5 milljarðar króna.

Í þriggja mánaða uppgjöri 2006 jukust rekstrartekjur frá fyrsta ársfjórðungi 2005 um 35,8%. Hagnaður samstæðunnar fyrir fjármagnsliði og skatta (EBITDA) var 439 milljónir króna sem er um 8% umfram áætlanir.

Gengistap var vegna vaxtaskiptasamninga sem gerðir voru 2005 uppá 316 milljónir króna og tap eftir skatta var 100 miljónir króna en á sama tíma í fyrra var hagnaður 105 milljónir króna. VBS segir að tap af rekstri félagsins fyrstu þrjá mánuði ársins 2006 má að miklu leyti rekja til taps vegna þessara samninga.

Við mat á verðmæti félagsins miðar VBS við 11,5% ávöxtunarkröfu og er þá horft til nýlegra verðmata á skráðum félögum af svipaðri stærð og aðstæðna á verðbréfamarkaði.

"Jafnframt er gert ráð fyrir því að innri vöxtur verði um 7,0% næstu fimm árin og 3% upp frá því sem er nokkuð yfir áætluðum hagvexti til lengri tíma litið. Hins vegar er þessi vöxtur lægri en hagvöxtur hefur verið að meðaltali undanfarin fjögur ár," segir í verðmati VBS

"Ein megin forsenda við verðmat þetta er ávöxtunarkrafan 11,5% sem er réttlætt með því að samstæðan er í fjölbreyttum rekstri hérlendis og rekstur erlendis fer sífellt vaxandi. Rekstur Kögunar stendur á mörgum stoðum. Sé næmni verðmatsins skoðað út frá breytingu á ávöxtunarkröfu kemur í ljós að sé krafan 14% annars vegar og 10% hins vegar, getur útreiknað gengi hlutabréfa í Kögun verið á bilinu 44,22 til 93,47"