Sitjandi ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna tók við völdum á Íslandi 1.febrúar 2009 eftir að efnahagskerfi Íslands hafði farið á hliðina. Við hinni nýju ríkisstjórn blöstu mýmörg endurreisnarverkefni. Þau stærstu snéru með beinum hætti að ríkisfjármálum og því grundvallarhlutverki stjórnvalds að finna jafnvægi milli tekna og útgjalda. Önnur voru óvenjulegri og snéru að því að eindurreisa ýmis einkafyrirtæki. Dæmi um hið síðar nefnda er umdeild lífgjöf VBS Fjárfestingarbanka.

VBS Fjárfestingabanki

VBS Fjárfestingarbanki fékk 26,4 milljarða króna lán frá ríkissjóði Íslands í mars 2009. VBS núvirti 9,4 milljarða króna af láninu og færði afturvirkt sem eign í ársreikningi sínum fyrir árið 2008. Við þá æfingu varð eigið fé bankans jákvætt og hann keypti sér aukinn líftíma. Íslenska ríkið hafði áður keypt kröfur á VBS af Seðlabanka Íslands en tilurð þeirra var vegna veðlánaviðskipta við bankann. Þessi háttur, að framselja kröfuna fram og til baka, var hafður á vegna þess að Seðlabankanum var óheimilt að veita VBS eiginfjárfyrirgreiðslu. Það gat ríkissjóður hins vegar gert. Þegar búið var að klára lánveitinguna framseldi ríkissjóður síðan kröfuna aftur til Seðlabankans.

Sýndargerningur

VBS fór í þrot í mars 2010. Á þeim tíma sem leið frá lánveitingu ríkissjóðs og fram að þroti náði Seðlabanki Íslands og ríkissjóður að sölsa undir sig veð í nánast öllum eignum bankans á kostnað annarra kröfuhafa. Slitastjórn VBS telur að þrot bankans hafi því verið vísvitandi dregið í þessum tilgangi og að lánið hafi verið „sýndargerningur“. Lýstar kröfur í bú VBS eru um 48 milljarðar króna. Einungis er búist við því að 1/5 þeirrar upphæðar fáist upp í kröfurnar. Slitastjórn VBS hafnaði í júní veðtöku Seðlabankans í eignum bankans á grundvelli þessa. Í afstöðubréfi slitastjórnar kemur meðal annars fram að Seðlabankanum og fulltrúum ríkissjóðs (fjármálaráðuneytinu) hefði mátt vera fullkomlega ljóst eigi síðar en hinn 1. desember 2008 að VBS hefði í raun verið ógjaldfær frá þeim tímapunkti.

Fékk lán fyrir launum

Ráðgjafafyrirtækið Möttull, sem vann meðal annars töluvert fyrir fjármálaráðuneytið, gerði skýrslu um VBS í ágúst 2009 þar sem fram kom að endurmetið eigið fé VBS væri neikvætt um rúman hálfan milljarð. Skýrslunni var skilað til Seðlabankans og stjórnenda VBS. Samkvæmt skilmálum láns ríkissjóðs til VBS og lögum um eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækja hefði átt að færa VBS í umsjá Fjármálaeftirlitsins (FME) samstundis eftir að þessi skýrsla lá fyrir. Í stað þess lánaði Seðlabankinn bankanum 53 milljónir króna svo VBS gæti borgað laun þann mánuð. VBS var ekki settur í þrot fyrr en mars 2010, átta mánuðum síðar.

Eiga eftir að taka til varna

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra vildi ekki tjá sig mikið um málið þar sem ríkið og Seðlabankinn eiga eftir að taka til varna og svara afstöðu slitastjórnarinnar. Hann segist þó ekki vera sammála því sem fram kemur í afstöðubréfi hennar. „Það var reynt að veita þessum fyrirtækum tækifæri til að bjarga sínum málum. Ég vil minna á að það voru ekki lagðir beinharðir fjármunir inn í VBS heldur kröfur sem við vorum þegar með í okkar höndum. Það hafa mörg fyrirtæki fengið að starfa á undanþágu frá FME eftir bankahrun og fengið tækifæri til að reyna að bjarga sér. Þegar það tekst eru menn ánægðir með framkvæmdina en þegar það tekst ekki þá líta menn oft í baksýnisspegilinn og finna að henni.“

Nánar er fjallað um umdeildar lífgjafir ríkisstjórnarinnar í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð.