Heimildir Viðskiptablaðsins herma að VBS hafi lent í lausafjárþurrð í febrúar 2008. Á þeim tíma hafi meðal annars verið rætt um að tilkynna Seðlabanka Íslands um lausafjárvandræði bankans.

VBS fékk á endanum lán frá helsta lánardrottni sínum, Landsbanka Íslands, til að fleyta sér áfram. Samhliða var gerður veðsamningur þar sem VBS veðsetti Landsbankanum stóran hluta eignarsafn síns. Hann er dagsettur 29. febrúar 2008.

Í verðbréfalýsingu vegna skuldabréfaútgáfunnar sumarið 2008 var þess ekki getið að stór hluti eigna bankans væri veðsettur Landsbankanum. Sömu sögu er að segja um hálfsársuppgjör bankans, verðbréfalýsingu vegna peningamarkaðsvíxlanna og ársreikning VBS 2008.

Fjárfestar sem keyptu umrædda fjármálagjörninga gátu því ekki með nokkru móti vitað að eignir bankans væru veðsettar öðrum.