Beiðni Valsmanna hf. um að þinglýsa tryggingabréfi á fyrsta veðrétt lóðarinnar Hlíðarenda 9-15 fyrir 4,4 milljarða króna hefur verið samþykkt í Borgarráði, en fyrir var 385 milljóna veðskuldabréf í eigu borgarinnar áhvílandi á 1. veðrétti lóðarinnar að því er Morgunblaðið greinir frá.

Um er að ræða svokallaðan F reit þar sem áætlað er að byggja allt að 191 íbúð. Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um gæti fermetraverð íbúða á svæðinu miðast við um 600 þúsund krónur , en félagið Valsmenn sem séð hefur um yfirumsjón uppbyggingar á svæðinu er meðfjárfestir í þeirri lóð.

Brynjar Harðarson framkvæmdastjóri Valsmanna býður borginni í staðinn fyrsta veðrétt á lóðinni Hlíðarendi 2, eða svokallaðan A reit sem er einn af mörgum reitum á svæðinu, sem borgarlögmaður tekur undir að sé að öllu leyti sambærileg F reit.

Ástæða beiðninnar er að Íslandsbanki setti það sem ófrávíkjanlegt skilyrði að tryggingabréf þeirra á bak við framvæmdafjármögnun lóðarinnar hvíli frá byrjun á 1. veðrétti.