Í svari við fyrirspurn Viðskiptablaðsins segir Sigurður Erlingsson, forstjóri Íbúðalánasjóðs, að jafnvel þótt dómari fallist á það með tveimur kröfuhöfum Eirar hjúkrunarheimilis að afmá þinglýsingu veða sjóðsins á fjórum eignum Eirar breyti það ekki lagalegri stöðu veðanna sjálfra. Hann segir sjóðinn ekki vilja tjá sig efnislega um málið, en bendir á að samkvæmt lögum sé Íbúðalánasjóði óheimilt að lána án veða í þeirri fasteign sem til sé lánað. Málið nú snúi aðeins að þinglýsingu veðskjalanna en ekki gildi veðsetningarinnar sem slíkrar.

Viðskiptablaðið greindi frá því í síðustu viku að tveir kröfuhafar hjúkrunarheimilisins Eirar telja að fjórar fasteignir félagsins hafi verið veðsettar Íbúðalánasjóði með ólögmætum hætti og vilja að viðkomandi veðskuldabréf verði afmáð úr þinglýsingarbók. Í kærunni, sem Viðskiptablaðið hefur undir höndum, segir að áður en hægt sé að veðsetja eignir Eirar þurfi að fá samþykki sýslumannsins á Sauðárkróki, en það hafi ekki verið gert.