Markaðurinn með valrétti fyrir hráolíu hefur tekið duglega við sér samhliða miklum hækkunum olíuverðs síðastliðinn mánuð. Fjöldi kaupsamninga, sem greiða út ef olíuverð verður komið yfir 100 dollara á tunnu í janúar, hefur tvöfaldast síðan í byrjun september, en tunnan stendur í um 84 dollurum þegar þetta er skrifað.

Ástæðan fyrir þessum væntingum markaðarins eru í frétt Wall Street Journal um málið sagðar vera samdráttur í framboði frá Íran og öflugur hagvöxtur á heimsvísu.

Olíuverð er einn stærsti útgjaldaliður flugfélaga, og hækkun þess síðustu misseri hefur valdið Íslenskum flugfélögum töluverðum vandræðum.

Icelandair hefur tvsivar birt afkomuviðvörun vegna versnandi afkomu á árinu, og forstjórinn sagði af sér vegna þeirra seinni, meðal annars vegna olíuverðs.

Skuldabréfaútgáfa Wow air tafðist ítrekað og endaði með því að félagið borgar hæstu vexti meðal flugfélaga í Evrópu

Primera air óskaði eftir greiðslustöðvun í upphafi síðustu viku, en stjórn félagsins nefndi hækkandi olíuverð sem eina af ástæðunum.

Auk fluggeirans hefur olíuverð áhrif á ýmsar aðrar greinar og þætti hérlendis , og því er ljóst að gangi veðmál kaupréttarhafanna eftir mun það hafa víðtæk áhrif á íslenskt efnahagslíf.