Vogunarsjóðurinn Och-Ziff Capital Management sem á 6,6% hlut í Arion banka hefur verið í töluverðum vandræðum undanfarið. Eftir að Och-Ziff játaði sök í máli tengdu mútum í Afríku fyrir ári síðan hefur fjármagn og framkvæmdastjórar flúið sjóðinn. Auk þess færði Standard & Poor's lánshæfismat sjóðsins niður í BB-flokk með neikvæðum horfum úr BB+ flokk.

Nú hefur Och-Ziff sem er undir stjórn forstjórans, Dan Och, veðjað á nokkuð óþekktan sjóðstjóra til að snúa gengi sjóðsins við. Í Í febrúar síðastliðnum var Jimmy Levin ráðin sem fjárfestingastjóri sjóðsins og og mun Och-Ziff greiða honum 280 milljónir dollara í kaupaukagreiðslur takist honum að snúa gengi sjóðsins við samkvæmt frétt Bloomberg .

Kaupaukasamningurinn sem Levin gerði við Och-Ziff snýr að því að hann fær 39 milljón hluti í sjóðnum sem eru tengdir við árangur hans. Samningurinn skuldbindur Levin til að starfa hjá sjóðnum næstu þrjú árin. Til þess að hann fái allar 280 milljónirnar þarf hlutabréfaverð Och-Ziff að hækka um 125%. Ef bréfin hækka um 20% mun hann fá 50 milljónir dollara. Gengi hlutabréfa Och-Ziff stendur nú í um þremur dollurum á hlut og hefur lækkað um 80% frá því að fyrirtækið var skráð á markað árið 2014.

Och-Ziff Capital Management Group er eitt af stærstu fyrirtækjum heims á sviði sérhæfðrar eignastýringar. Aðalstöðvar Och-Ziff eru í New York en fyrirtækið er einnig með skrifstofur í London, Hong Kong, Mumbai, Beijing, Shanghai og Houston. Meðal fjárfesta Och-Ziff eru lífeyrissjóðir, sjóðasjóðir, stofnanir og styrktarsjóðir, fyrirtæki og aðrar stofnanir, einkabankar og fjársterkir einstaklingar.