Hlutabréf í fyrirtækjum tengdum Samsung fyrirtækjasamsteypunni í Suður Kóreu tóku stökk í dag og hækkuðu verð á bréfum í fyrirtækjum samsteypunnar um allt að ríflega fimmtungi, í kjölfar frétta um dauða stjórnarformanns félagsins, Lee Kun-hee.

Fjárfestar virðast veðja á það að fyrirtækið muni auka arðgreiðslur sínar til að aðstoða fjölskyldumeðlimi hans til að borga háa erfðafjárskatta í landinu.

„Hlutabréf hækka í virði því einingar innan samsteypunnar munu líklega borga hærri arðgreiðslur til að standa undir erfðafjársköttum fjölskyldunnar,“ hefur FT eftir Park Ju-geun, sem stýrir greiningarfyrirtækinu CEO Score.

Lee, sem lést í gær sunnudag, var ríkasti maður landsins en eignarhlutur hans í fyrirtækjum innan Samsung samsteypunnar voru að andvirði um 18.200 milljarða suður kóreskra wona, sem samsvarar um 2.239 milljörðum íslenskra króna, eða ríflega 2,2 billjónum króna.

Sonur hans, Lee Jae-yong sem verið hefur varastjórnarformaður Samsung Electronics, hefur leitt fyrirtækjasamsteypuna síðustu sex árin eftir að faðir hans fékk hjartaáfall.

Allt að 65% erfðafjárskattar

Í Suður Kóreu geta erfðafjárskattar náð allt að 65%, sem er eitt hæsta hlutfall í heimi, sem þýðir að fjölskylda Lee eldri þurfa að reiða fram sem nemur 10.600 milljörðum wona til að fá stjórn á eignum hans og þar með stjórn á stærstu fyrirtækjasamsteypu landsins.

Fjölskyldan, sem hefur haldið stjórn á fyrirtækjasamsteypunni í gegnum flókið net krosseignatengsla, getur þó greitt summuna á fimm árum. Byggingaverktakafyrirtækið Samsung C&T starfar í raun eins og eignarhaldsfélag utan um samsteypuna, og átti Lee þar 17,3% hlut.

Bréf í byggingafyrirtækinu hækkuðu um 21% á mörkuðum í landinu í dag, en bréf í tryggingafélagi samsteypunnar, Samsung Life, hækkuðu um 15,7%. Einnig hækkuðu bréf í Samsung BioLogics, Samsung SDS og Samsung Engineering.

Fjárfestar vænta einnig endurskipulagningar fyrirtækjasamsteypunnar, en ólíklegt er að það gangi hratt fyrir sig meðan Lee yngri situr undir ásökunum um bókhaldssvindl og mútur.

Stendur í ströngu fyrir dómstólum

Á föstudag hófst málarekstur í dómsmáli gegn honum vegna bókhaldssvindls upp á 3,9 milljarða Bandaríkjadala hjá Samsung Biologics, og í dag hélt málarekstur vegna mútumáls til fyrrum forseta landsins Park Geun-hye áfram.

Í maímánuði lýsti Lee Jae-young því yfir að hann muni ekki afhenda börnum sínum stjórn á fyrirtækjasamsteypunni samhliða því að hann baðst afsökunar á því að þurfa að standa í dómsmálunum. Greinendur telja þó ólíklegt að Lee fjölskyldan muni missa stjórn á samsteypunni í kjölfar dauðsfalls stjórnarformannsins Lee Kun-hee í gær.

„Stjórn fjölskyldunnar mun halda áfram án meiriháttar breytinga í eignarhaldi á næstunni,“ hefur félagið eftir Chung Sun-seop, sem stýrir greiningardeild Chaebul.com. „Sala á hlutum í félaginu mun þó ekki vera auðveld vegna krosseignatengslanna í eignarhaldi samsteypunnar.“