Almennir fjárfestar í Bandaríkjunum hafa á undanförnum dögum verið að kaupa hlutabréf í fyrirtækjum sem nýverið hafa sótt um greiðslustöðvun.

Við lokun markaða í gær hafði gengi hlutabréfa bílaleigufyrirtækisins Hertz meira en fjórfaldast og bréf smásalans JC Penny nær tvöfaldast það sem af er júnímánuði þrátt fyrir að bæði félög hafi sótt um greiðslustöðvun í síðasta mánuði.

Sjá einnig: Hertz sækir um greiðslustöðvun

Hækkanir félaganna hafa komið ýmsum sjóðsstjórum og greiningaraðilum á óvart. Það virðist vera að stór hópur almennra fjárfesta séu tilbúnir að veðja á endurkomu félaganna, en þetta kemur fram í grein Financial Times .

Notendur Robinhood, smáforrit fyrir viðskipti hlutabréfa, hafa keypt fleiri hlutabréfí Hertz á undanförnum þremur dögum heldur en í nokkru öðru skráðu félagi í Bandaríkjunum.

Sömu sögu er að segja um fyrirtæki í orkugeiranum. Hlutabréf Whiting Petroleum hækkuðu um 150% á mánudaginn en fyrirtækið sótti um greiðslustöðvun í apríl. Hlutabréf fyrirtækisins Chesapeake Energy, sem er á barmi gjaldþrots, hækkaði um 180% á mánudaginn.

Sjá einnig: Bónusar rétt fyrir greiðslustöðvun

Paul Markham, sjóðsstjóri Newton Investment Management, segir að fjárfestar gætu verið að vonast eftir björgunarpökkum frá bandaríska ríkinu líkt og bandaríski bílamarkaðurinn fékk í fjármálakrísunni 2008-09.

Skráðu félögin sem um ræðir í fréttinni hafa öll fallið hressilega aftur á síðustu tveimur dögum. Peter Boockvar, forstjóri ráðgjafafyrirtækisins Bleakley Advisory Group, sagði að hinar miklu hækkanir á undanförnum dögum báru merki um „froðu“ í ákveðnum hluta markaðarins.