*

þriðjudagur, 1. desember 2020
Innlent 13. október 2020 15:51

Veðja á hækkun bréfa Icelandair

Ríflega tveggja milljóna viðskipti voru á fyrsta degi með áskriftarréttindi í Icelandair sem fylgdu 23 milljarða útboði félagsins.

Ritstjórn
Aðsend mynd

Viðskipti hófust í dag í kauphöll Nasdaq á Íslandi með áskriftarréttindi að nýju hlutafé í Icelandair sem útgefin voru 17. september síðastliðinn.

Heildarviðskiptin með réttindin námu um 2,2 milljónum króna, en þar með eru fjárfestarnir að veðja á að hækkun á gengi bréfa Icelandair verði það mikið meiri en áskriftarverðið þegar réttindin renna út að það nemi umfram kaupverðinu nú að viðbættum vöxtum.

Mestu viðskiptin voru með lengsta flokkinn sem rennur út haustið 2022, eða fyrir um 1,1 milljón króna, en réttindin voru keypt á 0,25 krónur hvert.

Næst mestu viðskiptin, eða fyrir um milljón krónur voru með stysta flokkinn, sem rennur út eftir tæpt ár, í ágúst 2021, en auk þess voru um 100 þúsund króna viðskipti með miðju flokkinn sem rennur út í febrúar 2022.

Í báðum síðari tilvikunum voru réttindin keypt á 0,15 krónur, eða fyrir um 165 þúsund krónur í heildina. Þar með námu viðskiptin með réttindin í dag um 415 þúsund krónum, þar sem viðskiptin með stærsta flokkinn námu um 250 þúsund krónum.

Áskriftarréttindin fylgja nýja hlutafénu sem gefið var út eftir 23 milljarða króna hlutafjárútboð félagsins sem fram fór um miðjan síðastliðinn mánuð. Lausnarverð áskriftarréttindanna verður 1 króna að viðbættum 15% árlegum vöxtum, en þau gefa fjárfestum rétt á kaupum á 25% viðbótarhlutum á tveggja ára tímabili.

Áskriftarréttindin eru tekin til viðskipta undir nöfnunum ICEAIRW130821, ICEAIRW180222 og ICEAIRW120822, en þau hafa mismunandi gildistíma og er kaupverð þeirra þegar þar að kemur 1,13 krónur, 1,22 krónur og 1,30 krónur.

Hægt er að nýta sér áskriftarréttindin dagana 3. til 13. ágúst 2021, 8. til 18. febrúar 2022 og 2. til 12. ágúst 2022, fyrir hvern flokk fyrir sig og þarf að greiða fyrir hlutina dagana 19. ágúst 2021, 24. febrúar 2022 og 18. ágúst 2022.