Greiningaraðilar telja að hráolíuverð muni hækka um allt að 50% á árinu. Í lokafjórðungi ársins er búist við því að olíuverð muni nema einhverjum 45-6 Bandaríkjadölum á tunnuna, en eins og stendur kostar tunna af Brent-hráolíu í kringum 30 Bandaríkjadali.

Goldman Sachs telja að olíuframboð muni jafna sig út vegna þess að framleiðsla bandarískrar bergbrotsolíu mun dragast saman er líður á árið. Framleiðsla Bandaríkjanna mun þá, samkvæmt greiningaraðilum, dragast saman um 7% milli næstu ársfjórðunga.

Sumir fjárfestar, á borð við fjárfestingardeildir CitiGroup, telja hráolíu vera fjárfestingarkost ársins 2016 - þar eð þeir búast við þessum fyrrnefndu hækkunum í lok ársins.

Rússland hefur átt í viðræðum við OPEC-ríkin um að draga úr framleiðslu og þar með hinu mikla offramboði á olíu sem nú tröllríður heiminum og hefur fært hráolíuverð niður í allt að 28 Bandaríkjadali.