Miklar skortstöður hafa verið teknar gegn kaffiverði að undanförnu en vogunarsjóðir og aðrir spákaupmenn gera ráð fyrir að mikil úrkoma í Brasilíu og hækkandi birgðastaða innflytjenda verði til þess að verð á kaffibaunum lækki á næstunni að því er kemur fram á vef Financial Times .

Nettó skortstaðan nú jafngildir heildarverðmæti kaffiútflutnings Kólumbíu sem er þriðji stærsti útfytjandi á kaffi í heiminum. Ef verð hækka þvert á stöðutökur spákaupmanna er búist við að flökt á kaffimörkuðum aukist.

Ljóst er að veður hefur mikil áhrif á kaffiframleiðslu og úrkoma er ein af forsendum stöðutöku spákaupmanna. Að því leyti er verið að veðja á veðrið. Líkur eru taldar til þess að veðurfyrirbrigði sem nefnist La Niña geti átt sér stað en það hefur yfirleitt í för með sér minni úrkomu í Brasilíu sem gæti orðið til þess að kaffiverð hækki.