Ónafngreindur fjárfestir veðjaði á það í dag að verð bitcoin myndi fara yfir 50.000 dollara á næsta ári eða um þrefalda sig í verði að því er kemur fram á vef Wall Street Journal .

Stöðutakan kom fram á daglegu viðskiptayfirliti LedgerX sem er rafrænn markaður fyrir afleiður með bitcoin. Fjárfestirinn festi kaup á kaupréttum sem renna út í desember 2018 fyrir rétt tæplega milljón dali.

Ef verð á bitcoin er undir 50.000 dölum þegar kaupréttirnir rannaút verður hann verðlaus og kaupandinn tapar öllu því sem hann greiddi fyrir kaupréttina eða tæplega milljón dölum. Ef markaðsverð verður hins vegar yfir 50.000 dölum hefur eigandi kaupréttanna rétt á að kaupa 275 bitcoin fyrir 50.000 dali hvern sem yrðu viðskipti upp á 13,8 milljónir dala.

Markaðsverð á bitcoin flöktir töluvert þessa dagana en stendur í um það bil 15.700 dölum þegar þetta er ritað.

Hækki bitcoin mikið á næsta ári gæti eigandi kaupréttanna hagnast mikið. Ef verðið verður til dæmis í 60.000 dölum mun viðkomandi hagnast um rúmlega 1,75 milljón dala.

Margir óttast þó að bitcoin sé bóla og verðið muni á endingu hrapa líkt og í öðrum bólum. Meðal þeirra er nóbelsverðlaunahafinn í hagfræði Joseph Stiglitz.