Akureyringarnir Óskar Helgi Adamsson, Einar Tryggvi Leifsson og Gunnar Torfi Steinarsson tóku nýlega þátt í frumkvöðlakeppni Gulleggsins. Þar kynntu þeir smáforrit sem nú ber nafnið Tipster. Smáforritið á að gera hverjum sem er kleift að hagnast á íþróttaveðmálum, en fyrirtækið sérhæfir sig í því að halda utan um hópa sem veita svokallaða veðmálaráðgjöf.

Alls eru 15 til 20 veðmálaráðgjafar á Tipster. Forritið virkar svo þannig að notandi sækir Tipster og velur sér veðmálaráðgjafa sem honum þykir gróðavænlegur. Notandinn sækir svo um aðild að hópum veðmálaráðgjafanna og nýtir sér svo upplýsingarnar til þess að veðja. Hver og einn ráðgjafa rukkar sérstakt gjald. Gjöld ráðgjafanna eru misjöfn eftir hópum.

Í dag eru allt að 15.000 notendur skráðir á Tipster og samkvæmt Óskari Helga eru um 4.000 notendur virkir daglega. Stofnendur félagsins eru allir vanir í hugbúnaðargerð. Óskar og Einar eru útskrifaðir tölvunar- og hugbúnaðarverkfræðingar og Gunnar Torfi mun í haust hefja sinn annan vetur í hugbúnaðarverkfræði við Háskólann í Reykjavík.

Notendur Tipster eru fæstir Íslendingar. Appið hefur notið mikilla vinsælda meðal breskra karlmanna, enda eru flestir veð- málaráðgjafarnir breskir. Hollendingar og Þjóðverjar virðast einnig vera að komast á lagið með að nota Tipster. Hingað til hafa strákarnir ekkert lagt í markaðssetningu, og hefur boðskapurinn aðallega breiðst út á samfélagsmiðlum.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð .