*

fimmtudagur, 22. ágúst 2019
Innlent 11. febrúar 2019 15:38

Veðsetning hlutabréfa eykst á ný

Veðsetningarhlutfall hlutabréfa í kauphöllinni hefur aukist um ríflega 3 prósentustig á einu og hálfu ári.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Frá því í júnílok árið 2017 hefur hlutfall markaðsvirðis hlutabréfafa sem veðsett eru í kauphöllinni deilt með heildarmarkaðsvirði félaganna sem um ræðir hækkað um 3,43 prósentustig.

Hefur hlutfallið í stórum dráttum hækkað jafnt og þétt síðan 30.júní 2017, ef horft er til stöðunnar í lok hvers mánaðar, þó með hámarki í byrjun síðasta árs sem nú er að nást á ný eftir nokkra lækkun á síðasta ári.

Þannig hefur hlutfallið farið úr 10,97% þá upp í 13,40% í lok janúar í ár, en ef horft er til loka hvers mánaðar þá fór hlutfallið hæst í 13,91% þann 30. apríl 2018. Á síðasta ári fór hlutfallið svo lægst niður í 11,43% í júlílok.

Á sama tíma hefur heildarmarkaðsvirði fyrirtækja í kauphöllinni minnkað nokkuð eða úr 1.055,9 milljörðum króna þann 30. júní 2017 í 998,3 milljarða í janúarlok. Kauphöll Nasdaq á Íslandi tekur þó fram að þessar tölur sýna einungis beina veðsetningu þar sem veð í verðbréfi hafi verið skráð á reikning í kerfi kauphallarinnar. 

Segja þeir gögnin því hvorki taka tilli til þess að lánveitandi gæti haft veð í öllum eigum lántakanda, þar á meðal hlutabréfum, né innihaldi þau upplýsingar um óbeinar veðtökur með gerð framvirkra samninga eða annarra afleiða. Loks veiti upplýsingarnar engar vísbendingar um veðþekju.

Stikkorð: Nasdaq Kauphöllin veðsetning