Heildarmarkaðsvirði hlutabréfa félaga í Kauphöllinni, bæði á Aðalmarkaðnum og First North-markaðnum, nam 1.866 milljörðum króna í lok september sem er um 46 milljörðum minna en í lok júní.

Alls lækkaði heildarmarkaðsvirði félaga í Kauphöllinni um 690 milljarða króna á fyrstu níu mánuðum ársins þrátt fyrir skráningu Ölgerðarinnar, Nova og Alvotech í júní.

Hlutfall veðtöku lækkar

Markaðsvirði veðsettra hlutabréfa í Kauphöllinni nam 207,4 milljörðum í lok síðasta mánaðar samanborið við 251,7 milljarða í lok júní, samkvæmt gögnum Nasdaq sem gefa vísbendingu um umfang skuldsetningar á hlutabréfamarkaðnum. Hlutfall veðsettra hlutabréfa af heildarmarkaðsvirði Kauphallarfélaganna lækkaði úr 13,2% niður í 11,0% á þriðja ársfjórðungi.

Í ritinu Fjármalastöðugleika, sem Seðlabankinn birti í síðustu viku, kom fram að lífeyrissjóðir eiga um 33% af markaðsvirði skráðra félaga í Kauphöllinni og eru þær eignir óveðsettar. Bein veðsetning hlutabréfa í eigu annarra aðila en lífeyrissjóða var því 25% í lok júní samanborið við 17% í lok árs 2021.

Sé miðað við að hlutdeild lífeyrissjóða hafi ekki breyst á þriðja fjórðungi má ætla að hlutfall beinnar veðsetning hlutabréfa í eigu annarra fjárfesta hafi lækkað aftur niður í 17% í lok september.

Hlutabréf hafa lækkað töluvert undanfarnar vikur sem hefur leitt til veðkalla hjá skuldsettum fjárfestum. Úrvalsvísitalan lækkaði um 7% á öðrum ársfjórðungi.

Taka skal fram að gögn Nasdaq sýna einungis beina veðsetningu. Gögnin taka því hvorki tillit til þess að lánveitandi gæti haft veð í öllum eigum lántakanda, þar á meðal hlutabréfum, né innihalda þau upplýsingar um óbeinar veðtökur með gerð framvirkra samninga eða annarra afleiðna.