Heildarveðsetning íslenska hlutabréfamarkaðarins hækkaði í júlí samkvæmt upplýsingum frá Nasdaq Iceland- Kauphöllinni. Hlutfall veðtöku í lok júní 2017 var 9,97% og hefur nú hækkað upp í 11,41% í lok júlí.  Nánar tiltekið er um að ræða upplýsingar um meðalveðsetningu allra félaga á hlutabréfamörkuðum Kauphallarinnar, reiknað út frá hlutfallslegu vægi hvers og eins félags.

Hlutfall veðtöku í lok árs 2016 var 10,92% í árslok 2016, 10,8% í lok árs 2015 og 11,24% í árslok 2014.

Upplýsingar um veðsetningu geta veitt ákveðnar vísbendingar um umfang skuldsetningar á hlutabréfamarkaði, það er hversu mikið fjárfestar hafa fengið að láni til að kaupa í skráðum félögum. Hækkandi skuldsetning getur verið til marks um aukna bjartsýni á meðal fjárfesta og kann hófleg skuldsetning því að vera túlkuð sem jákvæður fyrirboði. Of mikil skuldsetning getur aftur á móti verið litin neikvæðum augum af margvíslegum ástæðum. Til að mynda hafa margir talið að aukin skuldsetning geti orsakað bólumyndun á markaði.

Nýverið var tilkynnt um að Kauphöllin myndi birta opinberlega upplýsingar um heildarveðsetningu íslenska hlutabréfamarkaðarins. Með birtingunni er stigið skref í átt að auknu gagnsæi á markaði.