Í ljósi umræðunnar um skuldavanda íslenskra heimila mætti halda að Íslendingar væru almennt skuldugir upp fyrir haus. Ef opinberar upplýsingar um eignir og skuldir einstaklinga eru skoðaðar hins vegar sést að hlutfall fasteignaskulda af eign þeirra í fasteignum var um 46,2% árið 2010 og eitthvað svipað í fyrra.

Þetta hlutfall er vissulega hærra en það var árið 2007, þegar það var 34%, en felur samt í sér að eign Íslendinga í fasteignum er ríflega tvöfalt meiri en fasteignaskuldir þeirra.