Helstu hlutabréfavísitölur á mörkuðum í Bandaríkjunum lækkuðu lítillega eftir að dyr kauphalla opnuðu á ný í dag. Þeir hafa verið lokaðir í vikunni á meðan fellibylurinn Sandy gekk yfir austurströnd Bandaríkjanna. Ys og þys var í og við kauphöllina í New York (NYSE) þegar hún opnaði. Michael Bloomberg, borgarstjóri New York, mætti við opnuna ásamt forstjóranum Duncan L. Niederauer, nánasta samstarfsfólki hans og fjöldi sjónvarpsfréttamanna.

Eins og bandaríska dagblaðið The New York Times greinir frá gengu hlutabréfaviðskipti eins og aðra daga þrátt fyrir eyðilegginguna sem fellibylurinn olli á Manhattan og á öðrum stöðum sem hann fór yfir.

Tímaritið Forbes bendir á að gengi hlutabréfa í fyrirtækjum sem talin eru koma með einum eða öðrum hætti við sögu endurreisnarstarfs eftir veðurhaminn á austurströndinni hafi hækkað með í verði. Það á meðal var gengi hlutabréfa Home Depot og Lowe's, en gengi þeirra hækkaði um 1,8%. Gengi annarra fyrirtækja í byggingavörugeira og iðnaði hækkaði sömuleiðis.

Öðru máli gegnir um fyrirtæki í öðrum geirum, svo sem í tæknigreinum. Þar á meðal féll gengi bréfa Facebook um 3,6% og bréf Apple fóru niður um 1,4%.

Þetta sést einna best á vísitölunum. Nasdaq-vístialan hefur það sem af er degi lækkað um 0,56%, Dow Jones-hlutabréfavísitalan farið niður um 0,23% og og S&P 500-vísitalan hefur lækkað um 0,20%.