Actavis hefur unnið dómsmál í Noregi þar sem deilt var um markaðssetningu samheitalyfs frumlyfsins Casodex (bicalutamid). Fékk félagið dæmdar háar bætur af hendi frumlyfjafyrirtækisins AstraZeneca vegna markaðshindrandi aðgerða þess, alls 12 milljónir norskra króna vegna tapaðrar sölu, eða ríflega 182 milljónir íslenskra, auk lögfræðikostnaðar.

Ekki er enn ljóst hvort AZ áfrýjar dómnum, en bætur verða ekki greiddar fyrr en niðurstaða hugsanlegrar áfrýjunar er ljós. Samheitalyf Actavis, Bicalutamid, var sett á íslenskan markað í fyrra og var fyrr í sumar markaðssett í Bretlandi, Þýskalandi og Frakklandi, en AstraZeneca lét stöðva markaðssetningu þess í Noregi á þeim forsendum að um væri að ræða brot á einkaleyfi fyrirtækisins.

Oft verulegar upphæðir

„Við förum alltaf fram á bætur ef við teljum á okkur brotið, en það er misjafnt hvort þær fást. Þarna getur verið um verulegar upphæðir að ræða, sérstaklega í þessu tilviki á norska markaðnum,“ segir Sigurður Óli Ólafsson, forstjóri Actavis.

______________________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .