Allir vefþjónar Iceland Express hrundu um hádegi vegna mikils heimsóknarfjölda.

Búið er að koma tveimur þjónum upp aftur en enn er unnið að því að koma þeim þriðja upp.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Iceland Express en að hádegi hóf félagið að selja um 5.000 flugsæti í janúar og febrúar á rýmingarútsölu.

„Álagið á vefinn er það mesta í sögu félagsins og það rauðglóa allar línur hjá okkur af fólki sem nær ekki að bóka og er hrætt um að ná ekki í ódýra miða,“ segir í tilkynningunni.

Iceland Express vill koma þeim skilaboðum áfram að nóg sé af miðum á lágu gjaldi og hvetur fólk til að reyna aftur.