Vefritið Smugan fór út í loftið um miðnætti undir ritstjórn Bjargar Evu Erlendsdóttur fréttamanns. Eigendur útgáfufélags Smugunnar eru Vinstrihreyfingin-grænt framboð og fjöldi einstaklinga.

Smugan er vettvangur opinna skoðanaskipta og frétta í anda félagshyggju, kvenfrelsis, umhverfisverndar og friðarstefnu óháð markaðsöflunum, segir á vef VG.

"Tilgangur Smugunnar er að leggja sitt að mörkum til lýðræðislegrar umræðu með því að veita þeim opinn vettvang sem ekki hafa átt greiðan aðgang að fjölmiðlum hingað til. Smugan vill vera róttækur málsvari fólksins í landinu þegar góð ráð eru dýr," segir um vefinn.

Björg Eva segir m.a. í ritstjórnargrein sinni á Smugunni að ráðamenn liðinna ára séu jafn ótrúverðugir í evrum og krónum. Þeir kunni með hvorugt að fara. "Það hefur sannast. En meðan valdaklíkan býr sig til að kasta krónunni, búa kjósendur sig undir að kasta klíkunni," skrifar ritstjóri Smugunnar.

Smuguna má finna hér.