*

sunnudagur, 16. maí 2021
Innlent 30. maí 2019 10:55

Vefsíða sem reiknar út íbúðaverð

Vefsíðan Procura gerir fólki kleift að nálgast upplýsingar um áætlað sölu- og leiguverð 98% íbúðareigna á höfuðborgarsvæðinu.

Sveinn Ólafur Melsted
G. Andri Bergmann, eigandi og framkvæmdastjóri Procura.
Haraldur Guðjónsson

Vefsíðan Procura gerir fólki kleift að nálgast upplýsingar um áætlað sölu- og leiguverð 98% íbúðareigna á höfuðborgarsvæðinu. Þá er einnig hægt að nálgast uppgefið verð á þjónustu flestra fasteignasala á höfuðborgarsvæðinu á síðunni. G. Andri Bergmann, eigandi og framkvæmdastjóri Procura, segist hafa sett vefsíðuna á fót vegna skorts á fyrrnefndum upplýsingum. Ógagnsæi hafi ríkt um það hvernig verðmyndun á þessum mikilvægasta markaði landsins átti sér stað. Markmið Procura sé að bæta upplýsingaflæði og auka öryggi allra í þeim mikilvægu viðskiptum sem fasteignasalar einir hafa lögvarinn einkarétt til að hafa milligöngu um. Markmiðum þessum hyggist Procura ná með því að auðvelda neytendum að bera saman reiknuð sölu- og leiguverð fasteigna.

„Það var engin leið fyrir fólk að sjá hvers virði fasteign þess, eða eignin sem það hafði áhuga á að kaupa, var í raun. Fasteignasalar eru að sjálfsögðu hæfastir til þess að verðmeta eignir, en viðskiptavinurinn hafði ekkert viðmið við mat þeirra. Mér datt því í hug að reyna að finna einhvers konar kerfi sem gæti reiknað út verðið. Síðan þá hef ég verið í því að fínpússa kerfið og reyna að nálgast raunverðið eins og hægt er." G. Andri segir að vegna stærðar verkefnisins hafi hann ákveðið að takmarka sig við höfuðborgarsvæðið. Veltan á landsbyggðinni bjóði ekki upp á það að nálgast gögn sem gefi raunhæfa mynd af raunverði.

Reikniformúla byggð á fjölda gagna

Spurður um reikniaðferðina sem upplýsingar síðunnar byggja á, segir G. Andri að í sinni einföldustu mynd sé reynt að taka hverja og eina eign og magnbinda hana - þannig sé mögulegt að gefa eigninni ákveðinn stuðul sem hægt sé að reikna út frá.

„Við reynum að horfa á eignina sem fastan hlut og reiknum út verðið miðað við venjulega eign í venjulegu ástandi. Það er auðvitað ekki hægt að taka tillit til þess hvernig ástand eignarinnar er í raun. Eftir því sem að tíminn hefur liðið og fleiri gögn hafa komið til, þá höfum við fínpússað formúlurnar eftir verðmyndandi föstum. Við gefum öllum verðmyndandi þáttum ákveðinn stuðul og þegar búið er að safna saman öllum stuðlum, er hægt að reikna verðið fyrir tiltekna fasteign. Þetta er í raun vísindalegri nálgun á það hvernig fasteignasalar eru að verðmeta eignir í dag."

Nánar er fjallað um málið í Fasteignamarkaðnum, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér