Í könnun sem Framkvæmdastjórn ESB lét gera í september á vefsvæðum lánafyrirtækja komu íslensk fjármálafyrirtæki mjög vel út. Engar athugasemdir voru grðar við þær tíu vefsíður sem kannaðar voru hér á landi.

Kannaðar voru 562 vefsíður lánastofnana í 27 aðildarlöndum sambandsins auk Noregs og Íslands. Markmiðið var að komast að því hvort neytendur höfðu aðgang að upplýsingum sem þeim ber samkvæmt neytendalöggjöf ESB. Creditinfo er aðili að ACCIS, sem kom að rannsókninni.

Aðeins 30% vefsíðna í lagi

„Þessar upplýsingar eiga að auðvelda neytendum að skilja þau lánakjör sem í boði eru og að bera saman lánakjör mismunandi lánastofnana. Einungis 30% vefsíðnanna voru í samræmi við reglur ESB, meðan 70% þeirra voru taldar þurfa frekari rannsóknar við. Þau atriði sem mest var ábótavant snerust aðallega um skort á upplýsingum og villandi framsetningu á kostnaði," segir í tilkynningu frá Creditinfo.