Stafræna vöruþróunarfyrirtækið Kolibri hlaut Umbraco-verðlaunin fyrir hönnun á nýjum vef íslenska fataframleiðandans 66°Norður á verðlaunahátíð sem fram fór í Kaupmannahöfn á dögunum. Keppt var í þremur flokkum og vann Kolibri verðlaun fyrir best hönnuðu síðuna. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Nýi vefurinn þótti sýna vörur 66°Norður á mjög áþreifanlegan hátt og vera framúrskarandi dæmi um góða hönnun. Verðlaunagripurinn sem fylgir útnefningunni er óvenjulegur einhyrningur með gullslegið horn.

Steinar Ingi Farestveit „creative director“ hjá Kolibri stýrði hönnun vefsins en verkefnið var unnið í náinni samvinnu við markaðsdeild 66°Norður,  auglýsingastofuna Jónsson & Le’Macks og hugbúnaðarfyrirtækið Vettvang.

Steinar Ingi segir um málið „þegar við byrjuðum að vinna vefinn kom upp sú hugmynd að reyna að koma vörum 66°Norður á framfæri á áþreifanlegri hátt en hefðbundnar vefverslanir gera. Við vildum að notendur vefsins fengju það sama, eða jafnvel meira, út úr því að skoða vöruna í vefverslunni heldur en í verslunum fyrirtækisins. Við náðum þessu fram með því að einbeita okkur að sjónræna þættinum. Það eru stórar myndir af hverri vöru sem eru eins og hálfgerður bakgrunnur sem aðrar upplýsingar hvíla á. Þannig getur kaupandinn séð áferð og einkenni fatnaðarins betur en í hefðbundnum myndagluggum á vefnum.“

Kolibri varð til nýverið eftir sameiningu Form5 og Spretts. Form5 vann til allra helstu vefverðlauna sem veitt voru hér á landi í fyrra fyrir vef Nikita Clothing, og var hann þ.m.t. valinn besti vefurinn á SVEF, vefur ársins á NEXPO og hlaut Form5 verðlaun FÍT fyrir best hönnuðu vefsíðuna.

Tuttugu forritarar og hönnuðir starfa hjá Kolibri á Laugavegi 26 í Reykjavík. Fyrirtækið sérhæfir sig í að hanna og þróa stafrænar upplifanir fyrir viðskiptavina sína.

Á meðal viðskiptavina Kolibri eru Vodafone, Össur, 66°Norður, Tryggingamiðstöðin, Nikita Clothing,  Nova, Sjóvá, Eimskip og Salomon. Fyrirtækið dregur nafn sitt af kólíbrífuglinum sem er eitt best hannaða dýr fuglaríkisins og ástríðutákn ýmissa menningarheima.