Það er ekki hægt að klóna vefstefnu frá öðrum og það er ekki hægt að nota hana til lengri tíma. Það er engin ein stefna sem virkar fyrir stofnun eða einkahlutafélag. Þetta segir Díana Dögg Víglundsdóttir, vefstjóri N1. Díana var vefstjóri hjá Háskóla Íslands en tók við sem vefstjóri hjá N1 fyrr á árinu. Fjallað var um vefmál sem hluta af heildarstefnumótun á fundi Skýrslutæknifélags Íslands. Félagið er óháð fagfélag einstaklinga, fyrirtækja og stofnana á sviði upplýsingatækni.

Það er engin ein vefstefna rétt og það á enginn einn aðili að skrifa slíka stefnu. Það skiptir miklu máli að fá marga starfsmenn saman til að búa til vefstefnu og skilgreina tilgang vefsíðunnar, segir Díana. „Vefurinn er andlit fyrirtækisins og er oft aðal snertiflöturinn við fyrirtækið sjálft. Því þarf yfirstjórn að leggja línurnar með hvað eigi að fara á vefinn. “