Í nýrri greiningu Sjávarklasans kemur fram að íslenskur sjávarútvegur sé að mörgu leyti betur settur en sjávarútvegur í flestum nágrannalöndum til að nýta netið sem sölutæki. Það skýrist af því að hér á landi sé hægt að bjóða öruggt framboð allt árið um kring og framleiðslukeðjan sé heilsteypt. Hins vegar skorti íslenska þorskinn sérstöðu í markaðssetningu, vörumerki hans sé illa kynnt og þorskur sé almennt ekki merktur upprunalandi sínu.

„Mögulegir viðskiptavinir geta því ekki séð hvaðan fiskurinn kemur. Þarna er engum einum um að kenna en aðal ástæðan er ugglaust sú að mögulegir viðskiptavinir vita lítið um hvaða lönd eru að veiða og vinna þorsk af hæstu gæðum. Þarna hafa Norðmenn þó náð nokkru forskoti í sumum Evrópulöndum með því að kynna norskan uppruna fisks fyrir þarlendum neytendum.“

Jafnframt hafi athugun á vegum National Fisheries Institute leitt í ljós að rangar upplýsingar reyndust á bróðurparti umbúða þess fisks sem kannaður var.

Þá segir að mikil tækifæri séu í Kína og þar sé meiri notkun vefverslunar heldur en í öðrum heimshlutum. „Í Kína er mun meiri notkun vefverslunar á netinu en í nokkrum öðrum heimshluta. Þarlendis vilja neytendur í meira mæli panta ferska vöru í gegnum netið og koma svo í sérverslunina og kippa vörunni með sér. Kínverski vefsöluverslunin Alibaba hyggst setja á laggirnar 2 þúsund slíkar verslanir í Kína á næstu tíu árum. Þarna er ekki síst höfðað til milli- og hátekjufólks sem vill fá að kaupa ferskan eða lifandi fisk.“

Í greiningu Sjávarklasans er segir einnig að styrkleiki íslenska sjávarútvegsins í breyttu söluumhverfi sé einna helst tæknistig sjávarútvegsins og getan til þess að mæta einstaklingsbundinni eftirspurn. „Ný tölvutækni býður upp á skurð á flökum sem samræmast kröfum viðskiptavina um stærð og gerð bita. Þetta opnar mikla möguleika fyrir íslenskan sjávarútveg að bjóða alþjóðlegum neytendum upp á tilbúnar vörur beint á netinu.

Íslensku fyrirtækin geta gengið frá endanlegum pakkningum hérlendis, bæði ferskum og frosnum, og sent beint til neytenda með flugvélum eða skipum. Þrátt fyrir að sjávarútvegurinn muni hagnýta sér stórar vefverslanir verður einnig pláss fyrir sérverslanir á netinu sem innlend fyrirtæki geta starfrækt. Viðskiptavinir okkar gætu jafnvel sjálfir fylgt sínum fiski eftir í vinnslunni, ákveðið skurðinn og bitastærðir, fylgst með hitastigi, fengið upplýsingar um hvar fiskurinn var veiddur ofl.“