Á næstu vikum mun Þjóðskrá gefa út svokölluð neyðarvegabréf fyrir þá umsækjendur nýrra vegabréfa sem hyggjast ferðast til Evrópu, en áfram verða almenn vegabréf gefin út fyrir umsækjendur sem ferðast utan Evrópu. Var gert ráð fyrir að hingað til lands bærust 30 þúsund vegabréfabækur frá Kanada í byrjun mánaðarins, sem ekki skiluðu sér. Barst Þjóðskrá í dag tilkynning um að bækurnar yrðu ekki afhentar fyrr en í byrjun júní.

Framleiðandinn segir tafirnar á afhendingu vegabréfabókanna stafa af bruna í verksmiðjunni og skorti á öryggispappír til framleiðslunnar, en lager vegabréfabóka í landinu mun ekki duga til að gefa út almenn vegabréf handa öllum umsækjendum. Þeir sem sótt hafa um vegabréf eða hyggjast sækja um þau fyrir 10. júní næstkomandi þurfa að fylla út viðbótarupplýsingar um áfangastaði sína á vef þjóðskrár eða með því að hringja í þjónustuver í síma 515 5300.

Verða vegabréfaumsóknirnar síðan afgreiddar á eftirfarandi hátt:

  • Þeir sem ferðast til Evrópuríkja og eiga bókað far fyrir 10. júní fá afgreitt neyðarvegabréf. Haft verður samband við þá með tölvupósti þegar það er tilbúið. Almenna vegabréfið verður gefið út síðar og afhent með þeim hætti sem óskað var eftir við umsókn. Gjald verður ekki innheimt fyrir neyðarvegabréfið.
  • Þeir sem ferðast til ríkja utan Evrópu og eiga bókað far fyrir 10. júní fá afgreitt almennt vegabréf. Haft verður samband við þá með tölvupósti þegar það er tilbúið og tilkynning berst sömuleiðis í pósthólf viðkomandi á Mínum síðum á vefnum Ísland.is.
  • Umsóknir þeirra sem eiga bókað far 10. júní eða síðar verða afgreiddar í samræmi við stöðu mála þegar þar að kemur, með neyðarvegabréfi fyrst eða almennu vegabréfi strax, þar til afgreiðsla vegabréfa kemst á ný í eðlilegt horf.
  • Hraðafgreiðslu vegabréfa verður ekki unnt að sinna á meðan þetta ástand varir þar sem útgáfan tekur mið af brottfarardegi.