Orkustofnun hefur veitt Vegagerðinni leyfi til breytinga á Svaðbælisá ásamt tilheyrandi varnargörðum.

Á vef Orkustofnunar kemur fram að leyfið sé veitt samkvæmt nýlega breyttum vatnalögum. Orkustofnun hafi kynnt sér forsendur fyrirhugaðra breytinga á vatnsfarvegi Svaðbælisár í Rangárþingi og möguleg áhrif þeirra á umferð eða spjöll á eign annars manns ásamt mögulegri röskun á vatni, gæðum þess, vatnslegi, lífríki, vistkerfum eða landslagi, eftir því sem tilefnið gaf ástæðu til.

„Það léttir þó ekki þeirri skyldu af herðum framkvæmdaraðila að þessara atriða sé gætt af hans hálfu og að farið sé að fyrirmælum annarra laga er kunna að gilda um framkvæmdina,“ segir á vef Orkustofnunar.

„Einnig hefur stofnunin skoðað möguleg áhrif breytinganna á orkuauðlindir og grunnvatn. Það er mat Orkustofnunar að Vegagerðin hafi sýnt fram á það með fullnægjandi hætti að fyrirhugaðar breytingar á vatnsfarvegi Svaðbælisár séu hagkvæmasta lausnin á þeim vandræðum vegna aukins framburðar gosefna sem skapast hafa í kjölfar eldgoss í Eyjafjallajökli árið 2010.“