Umferðin á höfuðborgarsvæðinu jókst um 10,5 prósent sem er að mati Vegagerðarinnar gríðarlega mikil aukning og nú fóru um svæðið á hverjum sólahring 169 þúsund ökutæki. Þau hafa aldrei verið fleiri. Það vekur sérstaklega athygli Vegagerðarinnar að aukningin varð mest á mælisviði á Reykjanesbraut, en í frétt á vefsíðu stofnunarinnar kemur fram að líklega sé þar um að ræða áhrif frá opnun Costco. Gera má ráð fyrir að umferiðin í ár aukist um nærri átta prósent.

Umferðin jókst mikið í öllum mælisniðum en mest varð um mælisnið á Reykjanesbraut eða 12,5% aukning, en þar um fer að minnsta kosti einhver hluti umferðar til og frá Costco.

Í júní síðastliðnum var mest ekið á föstudögum en minnst á sunnudögum. Umferðin jókst hlutfallslega mest á föstudögum eða um 15,8% en minnst jókst umferðin á mánudögum eða um 6,1%. Nú benda líkur til þess að umferðin gæti aukist um 7,5 til 8% miðað við árið 2016. Slík aukning myndi þó ekki duga til að slá gamla metið frá árinu 2007 en þá jókst umferðin um 9,1% milli ára, í umræddum mælisniðum.