Vegagerðin mun nú í vor aðeins bjóða út nýframkvæmdir upp á um 1.900 milljónir króna. Um 50% af þeim framkvæmdum eiga að framkvæmast á þessu ári og 50% á árinu 2011. Það þýðir að eftirtekjan fyrir verktaka á þessu ári vegna nýrra útboðsverka á vegum Vegagerðarinnar verður einhver sú slakasta sem sést hefur.

Þó heildartala útboðsverkefna opinberra aðila sem kynnt voru á Útboðsþingi á fimmtudag á árinu 2010 sé 52 milljarðar króna eða sú sama og 2009, þá er langstærsti hluti þeirrar upphæðar vegna framkvæmda sem boðin voru út 2009 og 2008. Flest þeirra verkefna munu klárast á þessu og næsta ári og ber þar hæst Óshlíðargöng sem lokið verður við um mitt sumar og Héðinsfjarðargöng sem klárast í haust. Þá verður einnig að líta til þess að verðgildi 52 milljarða í dag mun minna en sömu upphæðar í ársbyrjun 2009. Þar að auki er aðkeypti efni, tæki og tól sem flutt er inn og er hluti af mörgum útboðsverkum mun dýrari en fyrir hrun og því verður hlutur íslenskra verktaka í væntanlegum útboðum rýrari sem því nemur og því minna fé sem nýtist til beinna framkvæmda.

Rögnvaldur Gunnarsson, forstöðumaður hjá Vegagerðinni, kynnti verkefni Vegagerðarinnar sem framundan eru á Útboðsþinginu. Í erindi hans kom fram að framvindan er um margt óljós. Á næstu vikum er þó búist við að það verði í stórum dráttum ljóst hversu miklar fjárveitingar verða til nýframkvæmda á árinu 2011. Þar sem mörgum verkum lýkur nú fyrir árslok 2010 vonast hann til að rými skapist fyrir töluverðar viðbótarframkvæmdir á næsta ári.

„Reiknað er með að a.m.k. sum þeirra verkefna verði boðin út þegar líða tekur á þetta ár, þótt framkvæmdir hefjist ekki fyrr en snemma árs 2011."