Hörð mótmæli atvinnubílstjóra undanfarna daga vegna hins háa eldsneytisverðs hefur vakið mikla athygli. Þar hafa þeir einnig mótmælt aðstöðuleysi við vegi landsins vegna skyldu í reglugerð að þeir stöðvi til að taka hvíldartíma með ákveðnu millibili. Vegagerðin hefur nú sent frá sér athugasemdir vegna þessa.

Í athugasemdum vegagerðarinnar segir m.a.:

„Ýmsar fullyrðingar hafa verið settar fram í umræðu undanfarinna daga vegna mótmæla flutningabílstjóra. Það er eðlilegt að eitt og annað sé sagt og stundum vill bregða við að rangar staðhæfingar séu settar fram. Sumar þeirra snúa að Vegagerðinni og því er rétt að árétta nokkra hluti sem að Vegagerðinni snúa.

Eitt hlutverka Vegagerðarinnar er umferðareftirlit og í því felst að hafa eftirlit með stærð, heildarþyngd og ásþunga ökutækja, hleðslu, frágangi og merkingu farms, ökumælum, ökuritum, olíugjaldi og kílómetragjaldi, leyfisskyldri starfsemi sem varðar fólksflutninga og farmflutninga á landi, akstri leigubíla og aksturs- og hvíldartíma ökumanna.

Umræða um of háar sektir, áningastaði, akstur- og hvíldartíma eiga ekki allar við rök að styðjast.”

Þá segir Vegagerðin  að því sé haldið fram að úti á landi sé hvergi gert ráð fyrir því að ökumenn þurfi að stöðva og hvíla sig. Þjónustudeild Vegagerðarinnar hafi hins vegar  tekið saman kort sem sýnir alla mögulega áningar og eftirlitsstaði á landinu og komi kannski á óvart hvað þeir leynast víða.

„Þá hefur því verið haldið fram að þær reglur sem hér á landi væru í gildi varðandi aksturs- og hvíldartíma ökumanna væru mun strangari en allsstaðar annarsstaðar í Evrópu. Þetta er alrangt. Sömu reglugerðir eiga að gilda á öllu EES-svæðinu. Það má þó færa rök fyrir því að hér gildi vægari reglur en annarsstaðar. Þann 15. mars 2006 tók í gildi ný reglugerð um aksturs- og hvíldartíma á EES-svæðinu nr. 561/2006. Í þeirri reglugerð eru nokkrar breytingar sem eru þrengri en í þeirri eldri, nr. 3820/2005. Þessi nýja reglugerð hefur ekki enn tekið gildi hér á landi og má því segja að hér séu vægari reglur en annarsstaðar.

Þá er einnig rétt að benda á að ákveðin frávik eru og hafa verið viðhöfð við úrvinnslu mála hvað varðar aksturs- og hvíldartíma og fullyrðingar um harðræði hvað það varðar fá ekki staðist. Umræddar reglur um aksturs- og hvíldartíma ökumanna hafa verið í gildi hér á landi frá því 1995 og hafa lítið breyst á þessum tíma.”