Vegagerðin mun verðlauna verktakana Suðurverk og Skrautu fyrir að ljúka við nýtt hringtorg hálfu ári áður en verklok voru upphaflega áætluð.

Um er að ræða mislæg gatnamót á mótum Reykjanesbrautar og Arnarnesvegar í Kópavogi. Verðlaunin eru 35 milljóna flýtifé. Þetta kemur fram á vef Samtaka iðnaðarins.

Umrædd gatnamót liggja suður af Smáralind og er hringtorgið á efri hæð þeirra. Reykjanesbrautin sjálf liggur undir torgið.

Enn eru nokkrum smáverkum ólokið sem bíða næsta sumars.