*

miðvikudagur, 21. ágúst 2019
Innlent 11. ágúst 2018 15:04

Vegan mættu virða kjötætur

Tilbúnir kjötréttir Kjötkompanísins í Krónunni hafa selst vel, sem skilað hefur sér til aukinnar veltu fyrirtækisins.

Höskuldur Marselíusarson
Jón Örn Stefánsson stofnaði Kjötkompaníið til þess að neytendur gætu nálgast rétt verkað og fitusprengt gæðakjöt, en félagið tvöfaldaði hagnað sinn á síðasta ári.
Eva Björk Ægisdóttir

Eigandi Kjötkompanísins, Jón Örn Stefánsson óttast ekki að grænmetisfæði ýti kjötinu alfarið út af matseðli Íslendinga, þótt hann fagni nýjasta tískufyrirbrigðinu að éta einungis kjöt og dýraafurðir sem meðmælendur segja bæta blóðsykurs- og bólguvandamál og geti jafnvel læknað þunglyndi.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hefur velta fyrirtækisins, sem opnaði seint á síðasta ári aðra verslun Kjötkompanísins í borginni, aukist um nálega fjórðung það sem af er ári. Félagið sérhæfir sig í sölu á gæðakjöti og meðlæti.

„Ég sjálfur er með þá stefnu að vera með meðalhóf í öllu sem ég geri og hef ég aldrei skilið þessa kúra. Ef fólk borðar eingöngu vegan er það allt í lagi fyrir mér, en þá mættu þeir virða það á sama hátt við þá sem vilja borða kjöt að þeir fái að gera það. Það hefur stundum verið svolítið ýkt á stundum,“ segir Jón Örn Stefánsson.

Hann leggur upp með að hægt sé að kaupa allt sem þyrfti í veisluna þegar hann stofnaði Kjötkompaníið.

„Hugmyndin er að viðskiptavinurinn gæti stólað á það að fá úrvals fitusprengda nautasteik sem væri búið að meðhöndla rétt. Nautakjötið er ekki selt fyrr en það er að lágmarki búið að hanga í 25 daga og fái að brjóta sig. Það er rétt meðhöndlun á kjötinu sem skiptir mestu máli, hvort sem það er lamb, naut eða hvað það er, til að skapa þetta góða bragð.“

Um áramótin fór félag Jóns að selja sósur, súpur og tilbúna rétti í verslunum Krónunnar. „Þetta hefur gengið gríðarlega vel, en það er greinilegt að það hefur verið skortur á fjölbreyttum gúrmet réttum sem auðvelt er að nálgast tilbúna. Þetta eru glerkrukkur sem vega kíló hver og eldað ofan í þær eins og á veitingastöðum,“ segir Jón Örn.

„Síðan erum við komnir með nokkra vöruliði sem framleiddir eru undir okkar nafni í Toskanahéraði í Ítalíu, þar sem við erum komin í beint samstarf við alla bestu matvælaframleiðendurna á þessu svæði. Þeir framleiða ólífur, olíur, pasta, trufluvörur og allt hvað það heitir sem er nauðsynlegt í ítalskri matargerð.“