Veggjald fyrir staka ferð í Hvalfjarðargöngum lækkar núna um mánaðarmótin úr 900 krónum í 800 krónur samkvæmt tilkynningu frá Spöl, sem á og rekur Hvalfjarðargöng. Jafnframt lækkar veggjald í flestum áskriftarflokkum en mismikið.

Þannig lækkar gjald í þremur flokkum um nálægt 4% en í þremur öðrum flokkum um meira en 20%. Lægsta veggjald áskrifenda eftir breytinguna verður 230 krónur fyrir venjulegan fjölskyldubíl.

Tilefni nýrrar gjaldskrár er að sögn Spalar væntanleg gildistaka tilskipunar Evrópusambandsins hér á landi varðandi hámarksafslátt vegna gjaldheimtu í veggöngum af ökutækjum sem eru 3,5 tonn eða meira og stunda samkeppnisrekstur.

Áhrifa tilskipunarinnar gætir mismikið í nýrri gjaldskrá en allar breytingar eru til lækkunar og ákveðið var að lækka jafnframt gjald fyrir staka ferð og fyrir áskriftar- og afsláttarferðir í I. flokki, gjaldflokki fjölskyldubíla.