Árið 2016 nam rekstrarkostnaður Hvalfjarðarganganna í heildina 256 milljónum króna að því er Morgunblaðið hefur upp úr minnisblaði Gylfa Þórðarsonar framkvæmdastjóra Spalar sem sér um rekstur ganganna.

Í júlí næstkomandi rennur út samningur fyrirtækisins við ríkið um rekstur gangnanna, en þá gera áætlanir ráð fyrir því að allar skuldir vegna ganganna verði greiddar upp, en á sama tíma fellur niður heimild til að rukka veggjöld í göngunum.

Samningurinn um rekstur ganganna og innheimtu gjaldsins var gerður milli Spalar og ríkisins 22. apríl 1995, en nú hefur Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra og formaður Framsóknarflokksins að til greina kæmi að innheimta veggjöldin áfram, þó hann hafi sagt að ekki væri stafkrókur um veggjöld í stjórnarsáttmála.

Skoðaði veggjöld út frá frekari uppbyggingu

Jón Gunnarsson fyrrverandi samgönguráðherra fyrir Sjálfstæðisflokkinn hafði sagt að veggjald yrði ekki innheimt, enda engar forsendur fyrir innheimtunni.

Eins og Viðskiptablaðið ræddi við hann um á sínum tíma þá voru uppi hugmyndir um veggjöld á mikilli uppbyggingu samgöngumannvirkja sem næðu frá Reykjavík og norður fyrir Borgarfjörð, sem gætu falið í sér tvöföldun Hvalfjarðarganganna.

Spölur hefur sent fjármálaráðherra og samgönguráðherra bréf um viðræður um hvernig yfirtaka ríkisins á göngunum fari fram, en félagið telur brýnt að ýmsir samningar við starfsmenn og eftirlitsaðila falli ekki úr gildi við yfirfærsluna.

Jafnframt er rætt um það í minnisblaði um málið að ekki verði hægt að byggja áframhaldandi gjaldtöku á sérleyfissamningnum við Spöl, enda hann samþykktur af Alþingi og þyrftu því breytingar á honum að vera samþykktar þar. Fyrirtækið bendir einnig á að innheimtukerfið sé úrelt og kostnaðarsamt en það gæti verið tímafrekt að setja upp nýtt kerfi.