Undanfarna mánuði hefur nokkur umræða átt sér stað um nauðsyn þess að bæta vegakerfið hér á landi. Í því samhengi hefur komið fram hugmynd um mögulega gjaldtöku í vegakerfinu, en í nýrri samgönguáætlun er opnað fyrir þennan möguleika. Í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar er samgönguáætlun ætlaðir 190 milljarðar króna, þar af 160 milljarðar í viðhald og vegaframkvæmdir næstu fimm ár. Framkvæmdir og framkvæmdahraði taka því mið af því. Í minnisblaði frá meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar kemur fram að svo að unnt sé að hraða framkvæmdum án skuldsetningar ríkissjóðs verði að leita annarra leiða til fjármögnunar. Fyrrnefnd gjaldtaka hefur því verið nefnd sem möguleiki til að hraða framkvæmdum.

Eftirbátar annarra samanburðarþjóða

Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og starfandi formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, segir að ráðast þurfi í stórfelldar breytingar til þess að styrkja samgöngukerfið hér á landi.

„Þar höfum við þennan möguleika á gjaldtöku, en það er ekki tilviljun að sá möguleiki hafi verið valinn af flestum þeim þjóðum sem við berum okkur saman við í mjög vaxandi mæli. Í nýlega útgefinni skýrslu kemur fram að kostnaður samfélagsins vegna umferðarslysa sé um 50 milljarðar króna á ári. Við erum algjörir eftirbátar annarra þjóða sem við berum okkur saman við í þessum málaflokki. Hér á landi er hlutfallslega miklu hærri umferðarslysatíðni í alvarlegum slysum og banaslysum. Það er því ljóst að við þurfum að grípa til aðgerða til að auka öryggi vegakerfisins.

Kosturinn við þessa leið umfram aðrar leiðir er að þeir sem búa í viðkomandi landi bera ekki einir kostnaðinn við uppbygginguna, vegna þess að ferðamannastraumurinn tekur einnig mikinn þátt í þessu. Ferðamenn borga  einnig gjöldin og þetta var til að mynda þróunin í Hvalfjarðargöngunum, þar sem hlutfall einskiptigreiðslna var alltaf að hækka. Þarna voru því ferðamennirnir að taka þátt í þessum kostnaði með okkur."

Jón bendir á að þegar byrjað var að byggja Hvalfjarðargöngin árið 1996 hafi verið gerðar skoðanakannanir sem leiddu í ljós að um það bil 70% þátttakenda hafi verið andvígir byggingu Hvalfjarðarganga. Allt annað yrði uppi á teningnum ef nú yrði gerð könnun á ánægju með útkomu Hvalfjarðarganga.

„Þetta voru umdeildar framkvæmdir á sínum tíma vegna gjaldtökunnar. Stór hluti þeirra sem voru andvígir sagðist meira að segja aldrei ætla að keyra þau. Ef skoðanakönnun yrði gerð í dag um það hvort fólk sé ánægt með útkomu Hvalfjarðaganga, yrði ég ekki í nokkrum vafa um það að yfirgnæfandi meirihluti væri mjög ánægður með útkomuna. Við horfum til þess hversu vel gekk með Hvalfjarðargöngin og leggjum því til að þessi sama leið sé farin nú þegar mikil uppbyggingarþörf blasir við í vegakerfinu."

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .