Út er komin bókin Íslenskur alþjóðlegur skattaréttur. Fjallar bókin um skattlagningu útlendinga sem hlotnast tekjur hér á landi og Íslendinga sem afla tekna erlendis til dæmis vegna tímabundinnar vinnu.

Í bókinni er gerð er grein fyrir skiptingu skattlagningar milli ríkja þegar svo stendur á og hvernig aflétting eða mildun tvískattlagningar er reiknuð út í þeim tilvikum er tekjurnar sæta skattlagningu í tveimur eða fleiri löndum. Þá inniheldur bókin einnig ítarlega umfjöllun um afmörkun á skattlagningarvaldi Íslands þegar menn og lögaðilar eiga í hlut t.d. í ljósi hinna svonefndu Máritaniu-dóma.

Í fréttatilkynningu frá útgefanda segir að gjarnan sé talað um að alþjóðlegur skattaréttur hafi tvær víddir, sé ein innlend og önnur útlend sem kristallast meðal annars í milliverðsreglunum sem ítarlega umfjöllun er að finna um í bókinni. Með inngöngu Íslands í EES bættist svo þriðja víddin við.

"Gildir það jafnvel þótt EES-samningurinn innihaldi ekki beinlínis ákvæði um skatta og stafar af því að samningurinn bannar aðildarríkjunum að mismuna ríkisborgurum annarra aðildarríkja m.a. við skattlagningu hér á landi eða nota skatta og gjöld til að hindra að eigin ríkisborgarar þeirra leiti sé að vinnu í öðru aðildarríki, stofni þar fyrirtæki svo dæmi sé tekið. Í bókinni er fjallað um þessar reglur og hvaða spurningar beri að spyrja til að komast að réttri niðurstöðu í því sambandi."

Bókin sem er mikið verk er um 1150 blaðsíður og hefur hún verið um 10 ár í smíðum. Bókin er skrifuð sem handbók eða uppfletti rit. Hún er umfram allt ætluð sem kennslubók á háskólastigi og er ætluð nemendum sem stefna að því að verða löggiltir endurskoðendur eða lögmenn með skattarétt sem sérsvið. Þeir sem við reikningsskil og endurskoðun geta þó einnig haft not af bókinni sem uppflettiriti. Höfundur bókarinnar er Ásmundur  G. Vilhjálmsson skattalögfræðingur en útgefandi er SkattVís – skattaráðgjöf og fræðsla.