Forystumenn stóru byggingarvöruverslananna þriggja, Sigurður Brynjar Pálsson forstjóri Byko, Árni Stefánsson forstjóri Húsasmiðjunnar og Ásgeir Bachmann framkvæmdastjóri Bauhaus á Íslandi segja aukna eftirspurn eftir öllu sem viðkemur heimilum fólks þessa dagana með hækkandi sól og léttari brún.

Eins og Viðskiptablaðið hefur fjallað um hefur verið mikil sprenging í sölu á fúavörðu timbri til pallagerðar, eða ríflega tvöföldun hjá öllum þremur fyrirtækjunum samhliða meiri frítíma vegna aukinnar heimaveru og færri ferðalaga í heimsfaraldrinum.

„Hvort sem það er málning, bað, eldhús, gólfefni eða hvað það er, þá varð vöxturinn í byrjun apríl en síðan í lok maí er allt komið á fullt í útivörunum, blómapottarnir eru mikið til uppseldir hjá okkur, þó þar komi eitthvað meira, við erum uppseld í trampólínum og svo eru garðrólur og garðhúsgögn að klárast hjá okkur í bili,“ segir Sigurður Brynjar í Byko.

„Við höfum náð að sinna þessu að mestu leyti því við höfum átt góða fjárfestingu í lager sem hefur komið að góðum notum, en garðhúsgögnin, þá sérstaklega þessi veglegri, hafa selst upp. Við höfum reynt að bæta við okkur í þeim, en þau eru uppseld í allri Evrópu á þeim lagerum sem við kaupum af,“ segir Ásgeir í Bauhaus og heldur áfram:

„Það kemur skemmtilega á óvart að fólk er að gera svolítinn lúxus við sig, eins og í grillunum, þar sem verið er að uppfæra sig í betri vörur. Ég hef velt fyrir mér hvort ráðstöfunartekjur heimilanna séu svolítið að aukast með útspilinu sem heimilar útgreiðslu á lífeyrissparnaði, það er ákveðin lúxusvæðing á landanum.“

Árni í Húsasmiðjunni lýsir ástandinu svo: „Það hafa komið gámar af garðhúsgögnum og heitum pottum sem rétt hefur náðst að losa og þá eru þeir bara farnir.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .