Áramót, tímarit Viðskiptablaðsins kom út í gær og er veglegra en nokkru sinni fyrr.

Meðal efnis í tímaritinu er viðtal við Rannveigu Rist , forstjóra Alcan á Íslandi og handhafa Viðskiptaverðlauna Viðskiptablaðsins árið 2010. Í viðtalinu fer Rannveig yfir stöðu mála hjá álverinu í Straumsvík og segir meðal annars frá því hvernig markvisst var unnið að því að greiða upp allar skuldir fyrirtækisins nokkrum mánuðum fyrir bankahrunið haustið 2008.

Þá er einnig viðtal við Stefán Hrafnkelsson , framkvæmdastjóra og eins stofnenda hugbúnaðarfyrirtækisins Betware en Stefán er jafnframt handhafi Frumkvöðlaverðlauna Viðskiptablaðsins árið 2010. Betware hefur vaxið og dafnað á þeim tíma sem fyrirtækið hefur verið starfandi en hugmyndina að baki fyrirtækinu, sem er þróun netlausna fyrir lottó og getraunir, má rekja til ársins 1996. Fyrirtækið er í dag skuldlaust með vel á annan milljarða í árstekjur og með góðan varasjóð til að mæta áföllum sem oft geta komið upp í hröðum heimi hugbúnaðargeirans.

Í tímariti Viðskiptablaðsins má einnig finna ítarleg viðtal við Davíð Oddsson , fyrrverandi forsætisráðherra og seðlabankastjóra. Davíð hefur fá viðtöl veitt eftir að hann lét af störfum í Seðlabankanum í febrúar 2009 en í viðtali við Viðskiptablaðið fer Davíð yfir þau helstu mál sem hann hefur verið gagnrýndur fyrir í aðdraganda og eftirmála bankahrunsins. Þá svarar Davíð einnig spurningum um stjórnmálaástandið á Íslandi, stöðuna á Icesave málinu en auk þess fjallar Davíð um sinn pólitíska feril, m.a. það hvernig hann íhugaði að hætta í stjórnmálum árið 2003.

Þá er einnig forvitnilegt viðtal við Hans-Ole Jochumsen , stjórnarformann Kauphallarinnar, þar sem hann er meðal annars spurður um framtíð hlutabréfamarkaðar hér á landi.

Ritstjórn Viðskiptablaðið rifjar jafnframt upp helstu fréttir blaðsins á árinu sem er að líða í ítarlegi yfirferð auk þess sem fjallað er um 10 stærstu fréttirnar á innlendum og erlendum vettvangi.

Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Fréttaskýring um skuldadaga erlendra ríkja
  • Stöðu Íslands í hinum ýmsu alþjóðlegu vísitölum, borið saman við árið 2007
  • Yfirlit yfir launhæstu íslensku íþróttamennina
  • Nánari úttektir um sport og peninga, s.s. fjárhagsvandræði Barcelona og tekjur knattspyrnuheimsins
  • Aðsendar greinar þekktra einstaklinga úr viðskiptalífinu þar sem fjallað er um lögfræði, markaðsmál, stöðu atvinnulífsins, líkamsrækt og margt fleira.
  • Áætlanir Bandaríkjahers um að byggja höfn á Rangársandi í seinni heimsstyrjöld
  • Viðbrögð og krísustjórnun Icelandair í eldgosinu í Eyjafjallajökli
  • Fréttaskýring um góð kaup úr þrotabúi Lehman Brothers
  • Úttekt á græjum ársins
  • Og margt fleira...